Um klúbbinn / About the club
Segja má að grunnur að skipulagðri ræktun Norskra skógarkatta hafi verið lagður árið 1996, með innflutningi Seven og Sessí. Frá þeim tíma hafa ræktendur lagt sitt að mörkum til að kynna tegundina með ýmsum hætti, bæði á sýningum Kynjakatta og utan þeirra. Á þessum tíma voru eigendur Norskra skógarkatta fáir og því ekki grundvöllur til að stofna klúbb skógarkattaeigenda. En eftir því sem hreinræktuðum Norskum skógarköttum hefur fjölgað hefur eigendunum einnig fjölgað. Þessir nýju eigendur fóru að spyrjast fyrir um svona félagsskap og sýna áhuga á að stofna klúbb.

Þann 19. apríl 2000 var Skógarkattaklúbbur Íslands formlega stofnaður. 13 félagsmenn mættu á stofnfundinn, en auk þeirra voru fleiri stofnfélagar sem ekki gátu mætt á fundinn.

Samskipti milli klúbbsmeðlima fara að mestu leiti fram á internetinu, með tölvupósti, auk þess sem klúbburinn heldur þessari heimasíðu úti. Þetta gerir það að verkum að hægt er að reka klúbbinn með lágmarkskostnaði.
Markmið klúbbsins eru að stuðla að markvissari ræktun Norskra skógarkatta á Íslandi, kynna tegundina, auk þess að hittast og hafa gaman. Klúbburinn hlaut það góða nafn "Skógarkattaklúbbur Íslands" og er rekinn án hagnaðarsjónamiða og óháð öllum ræktunarfélögum

Þar sem ræktendum í klúbbnum fer stöðugt fjölgandi finnst okkur ástæða til að klúbburinn setji markvissari stefnu í þeim málum en áður hefur verið.

Klúbburinn hvetur ræktendur skógarkatta til kynna sér ræktunarreglur Kynjakatta og FIFe áður en fólk parar læður sínar eða fress. Þessum ræktunarreglum verðum við að fylgja í einu og öllu. Markmið klúbbfélaga í Skógarkattaklúbbi Íslands ætti að vera að leggja sig fram við ræktun og verða til fyrirmyndar í eftirfylgni á ræktunarreglum Kynjakatta.

Klúbburinn hvetur félagsmenn til að forðast skyldleikarækt. Fólk kynni sér bakgrunn þeirra katta sem það kaupir til ræktunar, með tilliti til þess kettir með mikla skyldleikarækt á bak við sig séu ekki notaðir til ræktunar eða afkvæmi undan þeim.

Mælst er til þess að fresskattaeigendur láni ekki fressketti sína á læður með mikla skyldleikarækt á bak við sig, það sama gildir um læðueigendur, þeir forðist að nota fressketti með mikinn skyldleika á bak við sig.

Klúbburinn hvetur fólk til að nota aðeins heilbrigð dýr í ræktun. Klúbbmeðlimir rækti ekki undan dýrum með fæðingargalla eða aðra heilsufars- og útlitsgalla sem kunnu að koma í ljós þegar kötturinn þroskast.

Nú er staðallinn fyrir Norska Skógarketti orðinn mjög nákvæmur og minna svigrúm til mistúlkunnar en fyrir 1.1.2000. Klúbburinn hvetur ræktendur sérstaklega til að kynna sér staðalinn og reyna eftir fremsta megni að fylgja honum. Við hvetjum félagsmenn til að sýna metnað og fara ekki út í ræktun nema að vel ígrunduðu máli. "Ekki para út í loftið" bara til að fá kettlinga.

Við verðum að einbeita okkur að því að fá heilbrigð dýr, með útlit sem er í samræmi við staðalinn.


© Skógarkattaklúbbur Íslands

Stofnfélagar
Áslaug Líf Stanleysdóttir, Stanleys - kattarækt
Áslaug Sturlaugsdóttir, Björgvinjar - kattarækt
Atli Thoroddsen
Erla Stefánsdóttir
Halldóra Ingibergsdóttir
Heidi Fly, af Fly - kattarækt
Helga Kristín Guðlaugsdóttir
Hildur Karlsdóttir, Rauðhóla - kattarækt
Kristleifur Leósson, Vetrarheims - kattarækt
Margrét Birna Garðarsdóttir, Eldibrands- kattarækt
Sigrún Helgadóttir, Ljósálfa - kattarækt
Sigrún Þorsteinsdóttir
Sigurður Einarsson
Valtýr Björn Valtýsson
Vilma Kristín Guðjónsdóttir, Vetrarheims - kattarækt